Úrræði í námi og prófum

Háskóli Íslands leggur metnað sinn í að veita öllum nemendum skólans jöfn tækifæri til náms líkt og kveðið er á um í jafnréttisáætlun skólans og er nánar útfært í reglum um sértæk úrræði í námi. Um þessa þjónustu gilda ákveðnar reglur sem mikilvægt er að stúdentar kynni sér sem og leiðbeiningar hér fyrir neðan.

Óski stúdent eftir úrræðum í námi þarf viðkomandi að koma í viðtal til náms- og starfsráðgjafa NSHÍ, afhenda tilskilin gögn frá sérfræðingi og ganga frá skriflegu samkomulagi um úrræði, í síðasta lagi fyrir 15. október til að fá úrræði í prófum á haustmisseri og fyrir 15. mars til að fá úrræði í prófum á vormisseri.

Sértæk úrræði í aðgangsprófum fyrir háskólastig (A-prófum)
Hægt er að sækja um sértæk úrræði í A-prófum fyrir lok umsóknarfrests í A-próf hverju sinni. Nemendur við HÍ sem eru með virka samninga um sértæk úrræði þurfa ekki að gera annan samning vegna A-prófa. Aðrir þurfa að leita til Náms- og starfsráðgjafar HÍ á 3. hæð Háskólatorgs. Vottorð/greining frá sérfræðingi er forsenda úrræða. Nánar um A próf
 
Sértæk úrræði í inntökuprófum í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði
Allir sem óska eftir sértækum úrræðum í inntökuprófum í læknisfræði eða sjúkraþjálfunarfræði þurfa að gera sérstakan samning um úrræði  hvort sem þeir eru með gildan samning um sértæk úrræði við HÍ eða ekki.  Sækja þarf um sértæk úrræði fyrir lok umsóknarfrests í inntökupróf hverju sinni. Vottorð/greining frá sérfræðingi er forsenda úrræða. Nánar um inntökupróf. 
 

Stúdent ber ábyrgð á að verða sér úti um gögn frá viðeigandi sérfræðingi, þar sem fram kemur hver þörfin er fyrir sértæk úrræði og koma í viðtal til að ganga frá skriflegu samkomulagi fyrir tilgreindar dagsetningar. Sérstök athygli er vakin á að það getur tekið margar vikur að fá tíma hjá sérfræðingi þannig að stúdent þarf að gera viðeigandi ráðstafanir strax í byrjun misseris.

Náms- og starfsráðgjöf ber ábyrgð á að fylgja samkomulaginu eftir í samvinnu við starfsmenn skólans. Þar sem margir leggja hönd á plóg er mikilvægt að stúdentar sem óska eftir úrræðum í námi leiti til Náms- og starfsráðgjafar um leið og ákvörðun um skólavist er tekin til að hægt sé að koma sem best til móts við þarfir þeirra.

Tveir náms- og starfsráðgjafar, Hrafnhildur V. Kjartansdóttir og Aðalbjörg Guðmundsdóttir veita ráðgjöf og gera samninga um sértæk úrræði í námi og prófum. Þá sér Magnús M Stephensen um framkvæmd úrræða og aðgengissetur.

Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2018-2020
Reglur um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is