Undirbúningur fyrir próf

Undirbúningur fyrir próf

Próftímabil einkennast af miklu álagi sem nemendur valda misvel. Bætt
vinnubrögð og árangursrík námstækni geta dregið úr álagi í námi og á
próftímabilum og komið í veg fyrir streitu og kvíða. Prófundirbúningi má skipta
í tvennt; annars vegar undirbúning sem snýr að efnislegri yfirferð og námstækni
og hins vegar persónulegan undirbúning.

Efnisleg yfirferð og námstækni:

Forgangsröðun: Það er mikilvægt að forgangsraða verkefnum og velta fyrir sér
hvað er mikilvægt og/eða nauðsynlegt að framkvæma á próftímabilinu og hvað
getur beðið betri tíma. Oft þarf að gera tímabundnar breytingar á forgangsröðun
því próftímabil er álagstími, þar sem próflestur verður að hafa forgang.

Hugstormun og efnisflokkun: Gott getur verið að hefja próflestur á því að láta
hugann reika í nokkrar mínútur og hugsa; ,,hvað þarf ég að kunna fyrir próf í
þessari námsgrein”? Síðan er hægt að gera gátlista eða flokka efnið niður eftir
efnisatriðum, t.d. út frá kennsluáætlun, glósum eða kennslubók. Þannig má
brjóta námsefnið niður í smærri einingar til að gera það viðráðanlegra.

Langtímaáætlanir: Mikilvægt er að gera langtímaáætlun fyrir allt próftímabilið
til þess að fá heildarsýn. Ákveða þarf hvenær á að læra fyrir hvert próf og
hversu lengi. Nýta þarf vel tímann ef stutt er á milli prófa.

Daglegar tímaáætlanir: Gott er að gera áætlun fyrir hvern dag með hliðsjón af
heildarskipulaginu, en mun nákvæmari. Hafa þarf í huga; ,,hvaða námsgrein ætla
ég að læra,” hvar ætla ég að læra,” ,,á hvaða tíma” og ,,hversu lengi”? Gera
þarf ráð fyrir upprifjun á efni í lok hvers dags.

Vinnulotur: Tengjast daglegri tímaáætlun. Vinna þarf í hæfilega löngum lotum og
taka mið af þyngd efnis hverju sinni. Nauðsynlegt er að taka hlé á milli
lestrarlota og skipta um vinnuaðferð eða námsgrein ef einbeiting fer að dala.
Gott er að taka mið af því hvenær dags maður er best upplagður.

Upprifjun:  Endurtekning er besta aðferðin til að muna og hvað varðar
undirbúning fyrir próf þá er það upprifjun sem vegur þyngst á metunum.
Mikilvægt er að gera ráð fyrir markvissri upprifjun inni í áætlunum; við lok
hvers efnisþáttar og í lok hvers dags, ásamt t.d. vikulegri upprifjun. Auk
upprifjunar eru til ýmsar minnisaðferðir sem geta auðveldað lærdóm. Almennt
ganga þær út á það að flokka, raða og skipuleggja upplýsingar með einhverjum
hætti og ljá þeim merkingu, t.d. með því að muna fyrsta staf í hverju hugtaki
sem þarf að muna, búa til orðleysu úr fyrstu stöfum hvers orðs o.s.frv.

Námsumhverfi: Nauðsynlegt er fyrir hvern og einn að velta fyrir sér hvar honum
finnst best að læra. Þá skiptir máli að reyna að velja umhverfi þar sem fátt getur
truflað. Misjafnt er hvað hentar hverjum og einum, en aðstæður sem ýta einna helst undir nám eru lesstofur eða sérstök vinnuherbergi.

Persónulegur undirbúningur:

Uppbyggilegt sjálfstal: mikilvægt er að forðast niðurrifshugsanir og
niðurrifstal um okkur sjálf, þar sem við gerum ráð fyrir vanmætti og vangetu.
Þess í stað er hjálplegt að temja sér uppbyggilegt sjálfstal þar sem við
leggjum áherslu á árangur og getu okkar til að glíma við verkefni eða próf.

Hreyfing: skiptir alltaf miklu máli en er nauðsynleg á próftímabilum. Það er
mikil áreynsla, bæði líkamleg og andleg, að læra fyrir próf og hreyfing er
nauðsynleg til að fyrirbyggja úthaldsleysi eða vöðvabólgu. Flestir geta fundið
einhverja hreyfingu sem hentar þeim, s.s. gönguferðir, sund eða hjólreiðar.

Slökun: dregur úr streitu sem oft fylgir prófundirbúningi. Hægt er að læra
slökun en einnig eru til margar persónubundnar leiðir til slökunar, s.s. í
gegnum hreyfingu, tónlist, lestur o.fl.

Hvíld: gæta þarf þess að fá nægan svefn því ónógur svefn kemur niður á getu
manns til að muna og tileinka sér nýja þekkingu. Gott er að nota slökun ef illa
gengur að sofna á kvöldin.

Matarræði: matarvenjur tengjast orku og einbeitingu. Á próftímabili er
nauðsynlegt að gæta vel að matarræðinu, borða hollan og góðan mat og falla ekki
fyrir skyndiréttum, sælgæti, gosi og kaffi, eins og auðvelt er að gera þegar
maður er undir álagi og í sífelldu kapphlaupi við tímann.

Í prófi:

Mættu tímanlega til prófs.

Forðastu að taka þátt í streituvaldandi umræðum um prófið áður en þú gengur inn
í prófstofu.

Í upphafi prófs skaltu gefa þér tíma til að koma þér fyrir og undirbúa þig
andlega.

Skráðu minnisatriði á rissblað, s.s. formúlur, lykilhugtök og annað sem þér er
ofarlega í huga þegar þú sest inn í prófstofu.

Mundu að lesa spurningar og/eða leiðbeiningar mjög vel .

Lestu yfir allt prófið og byrjaðu síðan á að svara því sem þú ræður best við.

Gott er að vita vægi hverrar spurningar eða prófhluta og gæta þess að skipta
próftímanum niður á spurningar með hliðsjón af vægi þeirra.

Gott er að skipuleggja svar við ritgerðarspurningu með því að gera ágripskennda
beinagrind að svari á rissblað.

Ef þú getur ekki svarað prófspurningu geymir þú hana og kemur að henni síðar í
prófinu.

Einbeittu þér að prófinu en eyddu ekki tímanum í að fylgjast með samnemendum
eða hugsa um hvað þú hefðir átt að gera, eða gætir hafa gert, áður en þú fórst
í þetta próf.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is