Tímastjórnun

Tímastjórnun

Í hverri viku eru 168 klukkustundir. Það er á þína ábyrgð að forgangsraða hvernig þú
vilt  verja þessum tíma og hegða þér í samræmi við það. Þegar þú segist
ekki hafa nægan tíma þá ertu kannski í raun að segja að þú sért ekki að
verja tímanum eins og þú vildir gera.

• Tímaáætlanir eru grundvallaratriði í tímastjórnun og m.a. nauðsynleg forsenda þegar stór
verkefni eru brotin niður í smærri áfanga.

• Tímaáætlanir eru mikið notaðar, bæði af fólki í stjórnunarstörfum og námi og eru mjög
gagnlegar fyrir þá sem keppast við að ná settum markmiðum í lífinu.

• Tímaáætlun gefur ákveðið frelsi. Hún eykur yfirsýn yfir námið og gefur
þér tíma til að gera það sem er nauðsynlegt, en hún gefur þér einnig
kost á að skipuleggja frítíma þinn.

Tímaáætlanir

Áður en þú ferð að vinna eftir ákveðnu skipulagi er nauðsynlegt að þú gerir
þér fulla grein fyrir því hvernig þú ert að nýta tíma þinn, en fæst
okkar hafa skýra mynd af því í hvað tíminn raunverulega fer. Til þess að
átta þig á því getur þú t.d. skráð í eina til tvær vikur í hvað tími
þinn fer, s.s. hversu mikil tímasókn er hvern dag, hversu mikill tími
fer í heimalærdóm, hvað áhugamálin eða fjölskyldan taka mikinn tíma
o.s.frv. Þessi dagbókarskráning er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að
gera raunhæfa áætlun.
Markmið með dagbókarskráningu er að gera þig meðvitaða/n um í hvað þú verð tíma þínum. Þegar þú veist það getur þú farið að breyta ýmsu í fari þínu og lífsháttum og fundið tíma til að
gera það sem þú telur vera mikilvægt. Hægt er að vinna tímaáætlun og dagbókarskráningu samhliða. Þú gerir áætlun fyrir viku í senn og í lok
hvers dags skráir þú hvort áætlun stóðst eða ekki. Ef ekki, þá skráir þú
í hvað annað tíminn fór.

Sjá eyðublöð fyrir dagbókarskráningu og tímaáætlun

Gerð tímaáætlana

1. Byrjaðu á því að setja inn á vikuáætlun alla fasta þætti, s.s. fyrirlestra, verklega tíma, matartíma, líkamsþjálfun, skyldur í
einkalífi og frítíma.

2. Áætlaðu vikulega yfirferð í hverju námskeiði, en þó alltaf með heildina í huga. Hver námsgrein verður að fá
einhvern lágmarkstíma á viku, a.m.k. nægan tíma til að skila verkefnum
tímanlega og fylgja kennara eftir í yfirferð. Skiptu þeim tíma sem er
til ráðstöfunar niður á milli námskeiða til heimanáms.

3. Við upphaf hverrar viku er gott að forgangsraða þeim verkefnum sem framundan
eru, til að koma í veg fyrir að mikilvæg verkefni sitji á hakanum.

4. Gott er að hafa í huga að ná ákveðinni heild út úr degi hverjum og
skipuleggja daginn þannig að farið sé yfir krefjandi efni þegar fólk er
yfirleitt vel upplagt og léttara efni á öðrum tímum dags. Taktu mið af
þyngd efnis þegar þú skipuleggur lengd á vinnulotum. Ef þú ert að
frumvinna þungt efni getur verið gott að sitja fremur stutt við í einu,
t.d. í 20-30 mínútur. Við upprifjun, verkefnavinnu og frágang ættu
vinnulotur hins vegar að vera a.m.k. klukkustund að lengd. Síðan má
lengja vinnulotur smám saman með því að bæta t.d. 15 mínútum við.

5. Hafa þarf stíganda í skipulaginu og miklu máli skiptir að þú setjir þér
raunhæf og framkvæmanleg markmið. Ef þú ætlar þér of mikið er hætt við
að þér mistakist að fylgja áætlun. Það er því mikilvægt að nálgast
tímastjórnun með því hugarfari að það ert þú sem ert við stjórnvölinn.
Það ert þú sem gerir tímaáætlun og ákvarðar hvað er mikilvægt og hvað
ekki. Endurskoðaðu áætlun í vikulok og leggðu mat á árangurinn. Nýttu
þér niðurstöðurnar við gerð næstu áætlunar og smám saman áttar þú þig
betur á því hve löngum tíma þarf að verja til hvers verks.

6. Byrjaðu ekki með svo strangt skipulag að það sé fyrirfram dæmt til að
mistakast. Það veitir aukið sjálfstraust þegar áætlun stenst. Betra er
að hafa frítímana aðeins fleiri og lengri fyrstu vikurnar meðan komist
er í þjálfun og stytta þá síðan smám saman. Hugsaðu hlýlega til þín í
hvert skipti sem þú tekur spor í rétta átt og verðlaunaðu þig fyrir
hvert smáskref, en ekki aðeins fyrir stórfengleg afrek.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is