Strong Interest Inventory

Þjónustan á landsvísu liggur niðri tímabundið

Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands býður nemendum skólans og öðrum upp á áhugakönnun Strong. Um er að ræða spurningalista sem lagður er fyrir af náms- og starfsráðgjafa og viku síðar fær viðkomandi ítarlega skýrslu með niðurstöðum. Prófið kostar 12.000.- krónur.

Áhugakönnun Strong (Strong Interest Inventory) er elsta og mest notaða áhugakönnun í heimi. Margar milljónir manna víða um heim nota niðurstöður hennar til þess að auðvelda val á námi og starfi. Á Íslandi hefur könnunin verið í notkun frá árinu 1986 og flestir háskólar og framhaldsskólar landsins bjóða upp á hana. Könnunin er á íslensku en úrlausnin er á ensku. Með henni fylgja íslenskar leiðbeiningar.

Hægt er að sjá dæmi um niðurstöður prófsins á heimasíðu CPP, Inc

Fyrir hverja er áhugakönnun Strong?

Áhugakönnun Strong er ætluð einstaklingum 18 ára og eldri. Hún er einkum notuð til að hjálpa fólki við að taka ákvarðanir varðandi náms- og starfsval.

Hvers konar upplýsingar gefur Áhugakönnun Strong?

Grunnhugmyndin að baki Áhugakönnun Strong er sú að einstaklingurinn sé ánægðari og duglegri í starfi sem fellur að áhugasviði hans og að honum líði betur ef hann vinnur með fólki sem hefur lík áhugasvið og hann sjálfur.

Niðurstöðurnar eru víðtækar og þær má meðal annars nota til að:

  • Finna hvaða nám og störf falla að áhuga einstaklingsins og hver ekki
  • Finna hversu líkt eða ólíkt áhugasvið einstaklingsins er áhugasviði fólks í mismunandi starfsstéttum
  • Finna hvaða tómstundir veita einstaklingnum mesta ánægju
  • Finna hver sé líklegur stjórnunar- og samskiptastíll einstaklingsins og hvort honum líkar vel að taka áhættur í lífinu
  • Hjálpa einstaklingum við að setja sér markmið í tengslum við nám og störf
  • Efla sjálfskoðun

Ef þú  ert að velta fyrir þér að taka áhugakönnun Strong viljum við benda þér á að könnunin mælir áhuga þinn en ekki hæfni, getu eða kunnáttu. Hún gefur góðar vísbendingar um æskileg starfssvið en einblínir ekki á ákveðin störf. Hún gefur ekki upp eina rétta starfið fyrir þig heldur í hvers konar störfum þú gætir fundið ánægju. Það að taka áhugakönnun er einn liður í því ferli að velja nám eða starf. Eftir að þú hefur fengið niðurstöðurnar í hendur er mikilvægt að þú vinnir með þær og nýtir þær til samræmis við markmið þín.

*Eigandi prófsins frá árinu 1933 er CPP, Inc. California Bandaríkjunum. Dr. Sölvína Konráðs hefur unnið allar íslenskar þýðingar á prófinu og rannsóknir frá árinu 1987.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is