Samningur um sértæk úrræði í námi/prófum

Samningur um sértæk úrræði í námi/prófum

Þegar þú hefur orðið þér úti um tilskilin gögn (greiningu/vottorð) getur þú komið í viðtal við náms-og starfsráðgjafa og gengið frá svokölluðum samningi um úrræði í námi.

Í kennslualmanaki Háskóla Íslands kemur fram hver er lokadagsetning til þess að sækja um sértækúrræði í prófum á hverju misseri.  Almennt er miðað við dagsetningarnar 15. október til þess að eiga kost á úrræðum á próftímabili haustmisseris og 15. mars til þess að eiga kost á úrræðum í prófum vormisseris.

Samningur um sértæk úrræði í námi getur annars vegar verið ótímabundinn og hins vegar tímabundinn.

Ótímabundinn samningur er í gildi svo lengi sem þú ert skráður nemandi við Háskóla Íslands. Athugaðu að ef þú tekur þér hlé frá námi í eitt skólaár eða lengur fellur samningurinn þinn úr gildi og þú þarft að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa til þess að virkja hann að nýju þegar þú kemur aftur til náms.

Tímabundinn samningur er ýmist gerður til eins misseris eða til eins skólaárs. Tímabundnir samningar eru gerðir þegar ástæður úrræða eru þess eðlis að þær geta tekið breytingum svo sem tímabundin veikindi, afleiðingar slysa eða áfalla og andleg veikindi.  Athugaðu að tímabundinn samningur fellur úr gildi 10. janúar (fyrir tímabundna samninga á haustmisseri) og 31. ágúst (fyrir tímabundna samninga á vormisseri). 

Athugaðu að alltaf þarf að gera sérstakan tímabundinn samning vegna inntökuprófa, jafnvel þó þú hafir áður gert ótímabundinn samning í námi við Háskóla Íslands.

Þau úrræði sem kveðið er á um í samningi færð þú í öllum prófum sem eru á vegum prófstjórnar Háskóla Íslands.

Ef kennari leggur fyrir próf sem ekki fara í gegnum prófstjórn HÍ, svo sem próf sem lögð eru fyrir í kennslustund eða heimapróf, berð þú ábyrgð á því að láta kennara vita af því að þú hafir gert samning um úrræði í prófum (ef þú telur þig þurfa á á úrræðum að halda í viðkomandi prófi). Athugaðu að láta þarf kennara vita með amk. viku fyrirvara til þess að hann geti gert viðeigandi ráðstafanir.  Við undirskrift samnings færð þú afrit af samningnum þínum.  Þú getur því sýnt kennara samninginn þegar þú óskar eftir prófúrræðum.  

Ef aðstæður á prófstað eru ekki í samræmi við samninginn þinn hvetjum við þig til að tilkynna það strax til prófvarðar meðan á próftöku stendur.  Eftir að próftöku lýkur getur verið erfitt að bregðast við ábendingum. 

Ef þau úrræði sem þú átt rétt á krefjast sérstaks undirbúnings af hálfu starfsfólks viljum við vinsamlegast biðja þig um að hafa samband með góðum fyrirvara. 

Geymdu afrit af samningnum þínum.  Góð leið er að skanna samninginn inn eða taka mynd af honum á símann þinn til að eiga hann á rafrænu formi.  

Þú átt alltaf rétt á að hitta náms- og starfsráðgjafa til að fara yfir þín mál og endurskoða úrræði ef ástæða er til.  

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is