Hvers konar úrræði?

Sértæk úrræði í námi byggja á sérfræðiáliti sem fram kemur í greiningu eða læknisvottorði ásamt faglegu viðtali við náms- og starfsráðgjafa þar sem meðal annars er farið yfir fyrri reynslu nemanda af úrræðum í námi.

Úrræði eru einstaklingsmiðuð og reynt er að koma til móts við þarfir hvers einstaklings eins og greining eða læknisvottorð gefa tilefni til.

Úrræðin fela á engan hátt í sér að dregið sé úr eðlilegum námskröfum eða þeim hagað með öðrum hætti gagnvart þessum hópi nemenda en almennt gildir.

Hrafnhildur V. Kjartansdóttir og Aðalbjörg Guðmundsdóttir náms- og starfsráðgjafar veita ráðgjöf og gera samninga um sértæk úrræði í námi og prófum. Magnús M. Stephenssen sér um framkvæmd úrræða, skipulagningu táknmálstúlkunar og Aðgengissetur NSHÍ.

Yfirlit yfir þau úrræði sem veitt hafa verið við Háskóla Íslands: 

 • Námsefni á rafrænu formi (skönnun námsefnis).
  Úrræðið er veitt nemendum með dyslexíu, nemendum með hreyfihömlun og í undantekningartilvikum nemendum sem glíma við alvarleg veikindi. Nemendur leggja til námsefni til skönnunar ef með þarf. Nemendur þurfa sjálfir að útvega sér tölvuþul (talgervil) til að geta hlustað á rafrænt efni eða nýta tölvuþul í Aðgengissetri NSHÍ.
   
 • Aðlögun námsefnis að þörfum blindra/sjónskertra nemenda.
  Þetta úrræði er veitt í samvinnu við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.
   
 • Táknmálstúlkun.
  Úrræðið er veitt heyrnarskertum/heyrnarlausum nemendum.
   
 • Glósuvinur.
  Ef nemandi er, vegna fötlunar eða veikinda, ófær um að taka sjálfur niður glósur í kennslustundum getur hann fengið glósur frá samnemanda. Veiting úrræðisins er háð því að samnemandi fáist til verksins.
   
 • Aðstoð við verkefnavinnu.
  Úrræðið er veitt í undantekningartilvikum ef nemandi er t.d. ófær um að leita í heimildum eða ritun verkefna vegna fötlunar eða veikinda. Aldrei er um að ræða aukakennslu heldur mjög skýra og afmarkaða aðstoð með fyrirfram ákveðnum tímafjölda.
   
 • Aðgangur að Aðgengissetri NSHÍ
   Þar er að finna sérhæfðan hugbúnað sem gagnast getur t.d. nemendum með sértæka námsörðugleika eða sjónskerðingu. Einnig getur Aðgengissetur hentað sem námsaðstaða fyrir nemendur sem þurfa rólegt námsumhverfi.
   
 • Tryggt aðgengi að byggingum.
  Úrræðið er veitt nemendum með skerta hreyfigetu.
   
 • Aðstoð við að komast á milli kennslustofa/bygginga.
  Úrræðið er veitt nemendum með skerta hreyfigetu sem eiga erfitt með að komast á milli bygginga án aðstoðar.
   
 • Lenging á próftíma.
  Almennt er miðað við 25% lengingu á próftíma. Í undantekningartilvikum er um að ræða meiri lengingu.
   
 • Próftaka á tölvu.
  Ef nemandi er ófær um að handskrifa próf vegna fötlunar eða veikinda.
   
 • Tölvuþula við próftöku.
  Þá er tölvuþulur nýttur til að nemandi geti hlustað á prófspurningar í stað þess að lesa þær af blaði. Nemandi þarf að vera vanur slíku úrræði áður en kemur að próftöku því ekki er kennt á hugbúnaðinn í prófaðstæðum. Nemandi þarf að koma með eigin heyrnartól.
   
 • Stækkað letur á prófblöðum.
  Úrræðið getur átt við nemendur með dyslexíu og nemendur með sjónskerðingu.
   
 • Lituð prófblöð.
  Úrræðið á við nemendur með dyslexíu. Nemendur geta valið um gulan eða bláan lit.
   
 • Aðstoð við yfirfærslu krossa.
  Ef nemandi er ófær um að færa sjálfur svör við krossaspurningum yfir á til þess gert svarblað getur hann fengið aðstoð prófvarðar við yfirfærsluna.
   
 • Aðstaða í prófstofu.
  Ef nemandi þarf vegna veikinda eða fötlunar að geta staðað við próftöku er unnt að útvega honum púlt við próftöku. Ef nemandi á, vegna fötlunar eða veikinda, erfitt með að sitja í þeim stólum sem eru fyrir hendi í kennslustofum/prófstofum er unnt að útvega honum hentugri stól.
   
 • Dyslexíumerking á prófúrlausnir.
  Þá er límdur miði á prófúrlausnir nemenda þar sem kennari er beðinn um að taka tillit til þess við yfirferð prófúrlausnar að viðkomandi nemandi sé með dyslexíu.
   
 • Tónlist í eyrum við próftöku.
  Úrræðið er afar sjaldgæft og einungis veitt ef sérstök ástæða er til og hún vel rökstudd í sérfræðiáliti.
   
 • Ritari í prófi.
  Ef nemandi er, vegna fötlunar eða veikinda, ófær um að skrifa sjálfur svör við prófspurningum og önnur möguleg úrræði gagnast ekki. Prófstjórn HÍ útvegar ritara.
   
 • Próftaka í fárými.
  Þá tekur nemandi próf í prófstofu með fáum nemendum. Úrræðið getur átt við nemendur með athyglisbrest eða veikindi.
   
 • Próftaka í einrými.
  Úrræðið er fátítt og er aðeins veitt þegar því verður ekki við komið að nemandi taki próf með öðrum nemendum, t.d. ef nemandi er með aðstoðarfólk eða ritara í prófum.

Eftirtalin úrræði eru undantekningarlaust háð  samþykki og samráði við kennara/deildir:

 • Hljóðritun fyrirlestra.
  Þá fær nemandi að taka upp fyrirlestra/kennslustundir með leyfi viðkomandi kennara. Nemandi útvegar sjálfur upptökutæki. Úrræðið getur átt við nemendur með dyslexíu, athyglisbrest, sjónskerðingu, veikindi eða skerta hreyfigetu.
   
 • Myndataka af töflu/skjá.
  Þá fær nemandi leyfi viðkomandi kennara fyrir því að taka mynd af töflu eða skjá í kennslustundum. Úrræðið getur átt við nemendur með dyslexíu, athyglisbrest eða skerta hreyfigetu.
   
 • Sveigjanleiki í verkefnaskilum.
  Ef nemandi nær ekki, vegna fötlunar eða veikinda, að skila verkefnum á tilsettum tíma má óska eftir því að kennari veiti viðbótarfrest á verkefnaskilum.
   
 • Undanþága frá mætingarskyldu.
  Ef fötlun eða veikindi gera það að verkum að nemandi á erfitt eða ómögulegt með að standast kröfur kennara um mætingarskyldu má óska eftir undanþágu frá slíku.
   
 • Undanþága frá munnlegum verkefnaskilum.
  Ef fötlun, hömlun eða veikindi gera það að verkum að nemandi er ófær um að flytja verkefni munnlega má óska eftir því við kennara að fá að skila verkefni með öðrum hætti.
   
 • Hópverkefni unnin einstaklingslega.
  Ef fötlun, hömlun eða veikindi gera það að verkum að nemandi á erfitt með að vinna í hópi má óska eftir því við kennara að nemandi fái að skila einstaklingsverkefnum.
   
 • Breytt prófform.
  Ef ljóst er að fötlun eða veikindi gera það að verkum að nemanda er ókleift að þreyta próf með hefðbundnum hætti má óska eftir breyttu prófformi hjá kennara og deild. Úrræðið er afar fátítt og fyrir því þurfa að vera skýrar og vel rökstuddar ástæður.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is