Hvað geri ég til að fá aðstoð?

Til að hægt sé að veita þér sértæk úrræði í námi þarft þú að verða þér út um gögn frá viðeigandi sérfræðingi, sem staðfestir þörf fyrir úrræði og koma í viðtal til náms- og starfsráðgjafa. Alltaf er gengið frá skriflegu samkomulagi (samningi) um úrræði. Sérstök athygli er vakin á að það getur tekið langan tíma að fá tíma hjá sérfræðingi þannig að þú getur þurft að gera viðeigandi ráðstafanir strax í byrjun misseris.  Athugaðu að ef úrræðin sem þú þarft á að halda eru þess eðlis að þau krefjast undirbúnings áður en kennsla hefst á hverju misseri, svo sem tryggt aðgengi að kennslustofum, táknmálstúlkun, rittúlkun eða aðlögun námsefnis vegna blindu eða sjónskerðingar er mikilvægt að þú hafir samband við náms- og starfsráðgjafa með góðum fyrirvara. 

Í kennslualmanaki Háskóla Íslands kemur fram hver er lokadagsetning til þess að sækja um sértæk úrræði í prófum á hverju misseri  Almennt er miðað við dagsetningarnar 15. október til þess að eiga kost á úrræðum á próftímabili haustmisseris og 15. mars til þess að eiga kost á úrræðum í prófum vormisseris.

Stúdentaráð HÍ starfrækir greiningarsjóð fyrir nemendur með sértæka námsörðugleika og ADD/ADHD.  Þar geta þeir sóttum styrk upp í kostnað við greiningu.

Náms-  og starfsráðgjafarnir Hrafnhildur V. Kjartansdóttir og Aðalbjörg Guðmundsdóttir sinna málefnum þeirra nemenda sem þurfa á sértækum úrræðum að halda í námi og/eða prófum.  Þær eru til viðtals í opnum viðtalstímum sem eru mánudaga til fimmtudaga kl.13-15:30 og föstudaga kl.10:00-12:00.  Einnig er hægt að bóka viðtalstíma hjá þeim með því að hringja í síma 525-4315.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is