Hlutverk NSHÍ

Hlutverk starfsfólks Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands (NSHÍ) er að veita stúdentum háskólans margskonar stuðning og þjónustu meðan á námi stendur. Við framkvæmd og mótun þjónustu NSHÍ er tekið mið af stefnu Háskóla Íslands 2016-2021 (HÍ21) sérstaklega í tengslum við kaflana Nám og kennsla, Virk þátttaka í samfélagi og atvinnulífi og Mannauður

Í fyrsta lagi, varðandi nám og kennslu, má nefna leiðbeiningar til nemenda um vinnubrögð í háskólanámi, prófundirbúning og próftækni. Í öðru lagi er NSHÍ virkur þátttakandi í samfélaginu í kynningarferðum á landsbyggðinni, á Háskóladeginum, með aðkomu að Háskólahermi og með samskiptum við náms- og starfsráðgjafa á framhaldsskólastigi. Tilgangurinn er að kynna Háskóla Íslands fyrir verðandi stúdentum og brúa bilið úr framhaldsskóla í háskóla með gagnkvæmu samstarfi á milli skólastiga. Virk þátttaka NSHÍ í atvinnulífi hefur hingað til falist í fræðslu og ráðgjöf fyrir stúdenta varðandi atvinnuleit, atvinnuviðtöl, gerð ferilskrár, kynningarbréfs o.þ.h. Tilkoma Tengslatorgs HÍ býður upp á aukna möguleika í þessu samhengi. Í þriðja lagi styður NSHÍ við jafnrétti og fjölbreytileika stúdenta innan háskólans með þjónustu um sértæk úrræði í námi og sálfræðiráðgjöf, ásamt aukinni þjónustu við erlenda stúdenta. 

Til marks um mannauð og gæði þjónustunnar þá eru allir náms- og starfsráðgjafar NSHÍ með leyfisbréf frá menntamálaráðherra og vinna samkvæmt siðareglum Félags náms- og starfsráðgjafa.

NSHÍ sinnir fjölda annara verkþátta en þeirra sem falla beint undir stefnu HÍ21. Einn þeirra er starfsþjálfun meistaranema í  náms- og starfsráðgjöf en NSHÍ tekur á móti fyrsta árs nemum í styttri kynningar á vettvangi og annars árs nemum í starfsþjálfun og handleiðslu í eitt misseri. Ávinningur er gagnkvæmur. Nemar taka þátt í fjölbreyttu starfi NSHÍ og fá reynslu í faglegum vinnubrögðum á svið náms- og starfsráðgjafar. Á sama tíma tekur NSHÍ  þátt í mótun fagstéttar náms- og starfsráðgjafa og fylgist með nýjungum í faginu sem auka gæði þjónustunnar. Annar verkþáttur felst í erlendu samstarfi því NSHÍ á fulltrúa í NUAS og tveimur Norrænum netverkum um starfsráðgjöf og sértæka þjónustu á háskólastigi. Þá hefur NSHÍ boðið upp á vikulanga dagskrá fyrir evrópska náms- og starfsráðgjafa og farið í starfsmannaskipti til háskóla í Evrópu.

Velkomin í Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is