Fyrir kennara

Óski stúdent eftir sértækum úrræðum í námi þarf hann að koma í viðtal til náms- og starfsráðgjafa NSHÍ, afhenda tilskilin gögn frá sérfræðingi og ganga frá skriflegu samkomulagi (samningi) um úrræði.  Ganga þarf frá slíkum samningi í síðasta lagi fyrir 15. október til að fá úrræði í prófum á haustmisseri og fyrir 15. mars til að fá úrræði í prófum á vormisseri.  

Samningurinn er undirritaður bæði af nemanda og ráðgjafa og nemandi fær afrit af samingnum. Nemandi er hvattur til þess að skanna samninginn inn eða taka góða mynd af honum í síma til að eiga hann einnig á rafrænu formi.  Í samningi kemur fram hvaða úrræði það eru sem nemandinn þarfnast.  Nemandinn getur þurft að sýna kennara samninginn vegna úrræða í hlutaprófum sem eru á vegum kennara/deildar, heimaprófa og vegna úrræða sem krefjast samþykkis kennara s.s. óska um sveigjanleika á verkefnaskilum eða upptöku fyrirlestra.

NSHÍ tryggir úrræði í samvinnu við prófstjóra í öllum prófum sem eru á vegum prófstjórnar HÍ. Haldi kennari hlutapróf eða heimapróf á eigin vegum er það í höndum deilda og kennara að tryggja umsamin úrræði.  NSHÍ er kennurum innan handar varðandi ráðgjöf við veitingu sértækra úrræða. Hér er að finna upplýsingar og gagnlegar leiðbeiningar um framkvæmd hluta- og/eða skyndiprófa sem ekki eru á vegum prófstjórnar.  

Á skólaárinu 2015-2016 voru um 1100 nemendur með gilda samninga um sértæk úrræði í námi. Samningur um úrræði í námi getur verið tímabundinn (til eins misseris eða eins skólaárs) eða ótímabundinn (gildir á meðan viðkomandi einstaklingur stundar samfellt nám við skólann).

Úrræði geta verið af ýmsum toga en þau úrræði sem kalla á samþykki kennara og/eða samvinnu við hann eru t.d.: 

- Lengri próftími í hlutaprófum,

- leyfi fyrir hljóðritun fyrirlestra,

- ósk um bókalista með góðum fyrirvara ef aðlaga þarf námsefni að þörfum blindra/sjónskertra nemenda,

- táknmálstúlkun/rittúlkun í kennslustundum sem felur í sér að nauðsynlegt er að kennari veiti  túlki aðgang að kennsluefni fyrir kennslustundir,

- ósk um að kennari útskýri myndrænt efni munnlega ef sjónskertir/blindir nemendur eru í   nemendahópnum.

NSHÍ stendur reglulega fyrir stuttum kynningarfundum fyrir kennara og annað starfsfólk HÍ um veitingu sértækra úrræða í námi.  Kynningarfundir eru auglýstir sérstaklega með tölvupósti.  NSHÍ hefur einnig tiltækt fræðsluefni fyrir kennara og starfsfólk um fötlun, námsörðugleika og möguleg úrræði í námi.

Tveir náms- og starfsráðgjafar hjá NSHÍ, Hrafnhildur V. Kjartansdóttir hvk@hi.is og Aðalbjörg Guðmundsdóttir adalbjorg@hi.is, halda utan um málefni nemenda með sértæk úrræði í námi ásamt skrifstofustjóra, Magnúsi Stephensen msteph@hi.is

Reglur um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands 

Hér er að finna handbók fyrir starfsfólk á háskólastigi um aðgengi nemenda með fötlun og sértæka námsörðugleika að háskólanámi. Handbók þessi er afrakstur evrópsks samstarfsverkefnis, DARE (Disability Awareness), sem hefur það að markmiði að auka skilning háskólastarfsfólks á námsþörfum stúdenta með fötlun eða sértæka námsörðugleika. Í handbókinni er m.a. að finna ítarlegar upplýsingar um fötlun og sértæka námsörðugleika og bent er á ýmsar leiðir til að mæta þörfum þessa nemendahóps í akademísku umhverfi.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is